Ársskýrsla HVE fyrir árið 2015 er nú komin út. Þar er að finna ítarlegar upplýsingar um starfsemina, bæði í tölum og skýringum ásamt með niðurstöðum í rekstrarreikningi. Gerð er grein fyrir starfseminni í einstökum þáttum á átta starfsstöðvum stofnunarinnar með samanburði við fyrri ár og getið um það sem hæst bar á hverjum stað á árinu 2015. Í inngangi ársskýrslunnar rekur forstjóri þær aðstæður sem ríkja í heilbrigðisþjónustu á Íslandi þessi misserin og nefnir að uggur þeirra sem starfi í þjónustunni sé nokkur, ekki síst um það sem snýr að því að verja heilsugæsluna sem er grunnþjónustan og segir m.a.: „Mikilvægasti þáttur starfseminnar, grunnþjónustan, þ.e. heilsugæsla hefur í orði kveðnu verið sérstakt áhersluatriði stjórnvalda um langt skeið. Þeim sem starfa í heilbrigðisþjónustu hefur mörgum þótt hægt miða en á árinu var talsverð umræða um þessi málefni og verulegar breytingar í skipulagi á landsvísu kynntar. Einkum hafa sjónir stjórnvalda þó enn sem komið er beinst að höfuðborgarsvæðinu í þessu sambandi. Þar er fjölmennið mest og þrengingar umtalsverðar. Undirritaður hefur verið all virkur í umræðu um breytta skipan og lagt á það áherslu að huga þurfi af mikilli alvöru að viðgangi þjónustunnar á landsbyggðinni en þar eru margvísleg úrlausnarefni óleyst.“